16. janúar 2025
Árið 2023 tóku gildi lög nr. 25/2023 um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar en með gildistöku laganna voru m.a. ákvæði flokkanareglugerðar ESB (e. EU Taxonomy) innleidd í íslenskan rétt. Markmið reglugerðarinnar er að auka gangsæi er kemur að ófjárhagslegum upplýsingum fyrirtækja og þannig stýra fjármagni í átt að umhverfislega sjálfbærari atvinnustarfsemi. Reglugerðin leggur sérstaka áherslu á sex umhverfismarkmið en meðal þeirra eru mildun loftlagsbreytinga og umbreyting yfir í hringrásarhagkerfi. Til þess að ná markmiðum Íslands um sjálfbæra þróun og samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda þarf að leita leiða til að auka sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Markmið Þróunarfélagsins er að þróa grænan iðngarð með hringrásarhugsun að leiðarljósi og gefur það því augaleið að markmið flokkunarreglugerðarinnar styðja við þróun Grundartangasvæðisins. Á svæðinu má finna ýmiskonar starfsemi sem hefur verið skilgreind í umræddri reglugerð og gæti því, ef hún uppfyllir tæknileg matsviðmið, talist umhverfislega sjálfbær samkvæmt kröfum reglugerðarinnar. Fyrirtæki á Grundartangasvæðinu hafa nú þegar lagt í þá vegferð að greina umræddar kröfur og halda þannig áfram að vera leiðandi í íslensku atvinnulífi er kemur að umhverfismálum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum.